[ ]

Ársskýrsla

Ísfélags Vestmannaeyja hf.

2021

Efnisyfirlit

Starfsemi

Ávarp framkvæmdarstjóra

Starfsemi félagsins á árinu 2021 gekk að mestu vel. Eftir tveggja ára veiðibann á loðnu var aftur loðnuvertíð, þó lítil hafi verið og tókst að gera mikið úr litlum kvóta. Í bolfiskveiðum og vinnslu höfum við séð að þorskurinn er ekki eins auðveiddur og undanfarin ár en á móti kemur að markaðir tóku við sér að nýju eftir erfitt ár vegna covid heimsfaraldursins. Veiðar á makríl gengu skrykkjótt og langt var að sækja aflann, en með góðu samstarfi sjómanna á miðunum og öflugum skipum tókst félaginu að skila góðum afla í land. Síldarveiðar gengu afar vel á árinu 2021.

Covid-heimsfaraldurinn hafði töluverð áhrif á starfsemi félagsins og daglegt líf starfsmanna. Félagið fylgdi frá upphafi faraldurs leiðbeiningum stjórnvalda og gerði allt sem hægt væri til að verja starfsfólk og tryggja órofinn rekstur. Vel tókst til að koma í veg fyrir smit innan veggja félagsins og má þakka starfsfólki félagsins sérstaklega fyrir að hafa staðið vaktina.

Það er íslenskum sjávarútvegi mikið kappsmál að vera í fararbroddi þegar kemur að samfélagsmálum. Ísfélagið hefur skrifað undir samfélagsstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og telur þá stefnu vera til marks um viðhorf sjávarútvegsins til að gera sífellt betur og vinna á sátt og samlyndi við umhverfið og samfélagið. Í þessari skýrslu er ætlunin að varpa frekari ljósi á starfsemi félagsins. Það er margt sem er vel gert og eru áskoranir næstu ára að gera enn betur og verða orkuskipti í sjávarútvegi stóra málið næsta áratug. Félagið fagnar þeirri umræðu og leitar sífellt leiða til að draga úr losun í starfseminni, bæta umhverfisspor sitt og skilja eftir jákvæð spor í nærsamfélagi sínu.

Stefán Friðriksson, framkvæmdarstjóri Ísfélags Vestmannaeyja

Um skýrsluna

Ísfélag Vestmannaeyja hf. leggur mikla áherslu á að vera samfélagslega ábyrgt fyrirtæki og hafa jákvæð áhrif hvað varðar starfsemina og nánasta samfélag fyrirtækisins. Hér má finna fyrstu ársskýrslu félagsins. Við hönnun mælikvarða voru viðmið GRI (Global Reporting Initiative) um samfélagslega ábyrgð höfð til hliðsjónar.

Tilgangur útgáfu skýrslunnar er að gera grein fyrir starfsemi fyrirtækisins, veita upplýsingar um umhverfisáhrif, ásamt því hvernig fyrirtækið hefur áhrif á samfélag, mannauð og efnahag.

Skýrslan nær yfir árið 2021 og eru allar tölur og mælikvarðar settir fram samkvæmt bestu vitund. Upplýsingar í skýrslunni ná utan um starfsemi Ísfélags Vestmannaeyja hf.

Stjórn Ísfélags Vestmannaeyja hf. hefur samþykkt útgáfu skýrslunnar og frekari upplýsingar um gerð skýrslunnar veitir framkvæmdarstjóri félagsins.

Áfangar ársins 2021

120 ára afmæli

Félagið varð 120 ára árið 2021, en vegna covid var fögnuði frestað til ársins 2022. Veittir voru styrkir í tilefni af afmæli til hinna ýmissa samtaka, björgunarsveita og til góðgerðamála bæði í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn. 

Að auki var gefið út glæsilegt afmælisrit í tilefni tímamótanna, sem dreift var á öll heimili í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn

Ný skip

Álsey VE 2 kom í fyrsta skipti til heimahafnar í febrúar og félagið festi í desember kaup á sænska uppsjávarskipinu Ginneton sem fékk nafnið Suðurey VE 11.

Jólasíld

Á Þórshöfn hefur lengi tíðkast að gefa bæjarbúum síld í byrjun desember ár hvert. Á árinu var ákveðið að taka upp þann sið í Vestmannaeyjum, í tilefni af 120 ára afmæli félagsins. Gefin voru Ísfélagsspil og bolir með síldinni og viðtökur fóru fram úr björtustu vonum.

Samstarfssamningar

Á árinu voru samstarfssamningar félagsins við ÍBV og Ungmennafélag Langnesinga endurnýjaðir. Félagið er stolt af því að styðja við íþróttastarf í nærsamfélagi sínu og ánægt með samstarfið nú sem hingað til.

Árið í hnotskun

Um Ísfélag Vestmannaeyja hf.

Ísfélag Vestmannaeyja hf. var stofnað 1. desember árið 1901 og er elsta starfandi hlutafélag landsins. Tilgangur félagsins var að byggja og reka íshús til geymslu á beitu og vinna þannig bæði útgerðarmönnum og bæjarfélaginu gagn.

Ísfélag Vestmannaeyja hf. er sjávarútvegsfyrirtæki með starfsstöðvar í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn á Langanesi og hefur verið leiðandi afl í íslenskum sjávarútvegi síðustu 120 árin. Ísfélagið gerir  út fjögur uppsjávarskip, tvö bolfiskskip og einn krókabát. Árið 2021 voru stöðugildi hjá fyrirtækinu u.þ.b. 250 talsins og þar af voru um 60 stöðugildi á sjó. Félagið rekur tvö öflug frystihús, annars vegar í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn á Langanesi. Ásamt því rekur félagið tvær mjölverksmiðjur í sömu bæjarfélögum.

Félagið á hlut í sölufyrirtækjunum Iceland Pelagic ehf. og Stormar ehf. sem selja stóran hluta afurða félagsins um heim allan.

Stjórnarhættir

Stjórnarhættir félagsins taka mið af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, samþykktum félagsins og starfsreglum stjórnar. Stjórnin mótar stefnu, setur markmið og skilgreinir lykiláhættu í rekstri Ísfélagsins og með hvaða hætti brugðist verði við þeirri áhættu sem um ræðir. Stjórnendur hafa virkt eftirlit með áhættuþáttum sem hafa áhrif á rekstur og afkomu félagsins. Áhættustýring og innra eftirlit er samofið allri starfsemi félagsins með þann tilgang að gera auðveldara fyrir stjórnendur að hafa umsjón með rekstrinum. Stjórnin sér til þess að til staðar sé virkt kerfi innra eftirlits sem er formlegt, skjalfest og virkni þess reglulega yfirfarin. Stærstu áhættuþættir í rekstri Ísfélagsins eru tengdir tekjustreymi, fjármögnum og gengis- og vaxtaáhættu. Stjórnendur hafa heimild til að gera framvirka samninga til að takmarka gengis- og vaxtaáhættu.

Ársreikningur fyrirtækisins er gerður í samræmi við lög um ársreikninga og settar reikningsskilareglur. Ársreikningurinn byggir á kostnaðarverðs­reikningsskilum. Ársreikningurinn er settur fram í Bandaríkjadal (USD) sem er starfrækslu­gjaldmiðill félagsins.

Ísfélag Vestmannaeyja hf. telst nú sem eining tengd almannahagsmunum, sbr. e. lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga.  Endurskoðunarnefnd var kosin á árinu 2022.

Skipurit

Stjórn og stjórnendur

Stjórn fer með æðsta vald í málefnum Ísfélagsins á milli hluthafafunda og ber meginábyrgð á rekstrinum. Stjórn leggur áherslu á góða stjórnarhætti og að starf stjórnar og félagsins sé ávallt samkvæmt lögum, reglum og góðum viðskiptaháttum. Stjórnin er skipuð fjórum aðalmönnum.

Að loknum aðalfundi sem kýs stjórn félagsins kemur stjórn saman til fundar og kýs sér formann. Formaður stjórnar kemur fram fyrir hönd félagsins út á við nema formaðurinn ákveði annað. Stjórnin kemur reglulega saman samkvæmt ákvörðun stjórnarformanns og er formanni skylt að boða til fundar ef einhver stjórnarmanna eða framkvæmdarstjóri krefst þess. Stjórnin ber ábyrgð á að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins og fylgjast með áætlunum. Stjórnin fer árlega yfir framkvæmd hlutverks síns, verklag og starfshætti ásamt frammistöðu stjórnarformanns og framkvæmdarstjóra með það að markmiði að bæta skilvirkni og eftirlit stjórnar. Stjórnin sér um að gæta hagsmuna allra hluthafa og gæta jafnræðis þeirra á milli ásamt því að vera leiðandi við stefnumörkun félagsins til framtíðar. 

Daglegur rekstur er í höndum stjórnenda Ísfélagsins í samræmi við stefnu og ákvarðanir stjórnar. Framkvæmdarstjóri félagsins ber ábyrgð á daglegum rekstri félagsins og fer með ákvörðunarvald í málefnum sem ekki eru falin öðrum eða falla undir verksvið stjórnar eðli málsins samkvæmt.

Stjórn

Gunnlaugur er fæddur þann 29. desember árið 1958. Gunnlaugur er stjórnarformaður Ísfélagsins og hefur setið í stjórn félagsins frá árinu 1991. Hann lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1978 og cand. jur. prófi frá Háskóla Íslands árið 1986. Gunnlaugur er stjórnarformaður Lýsis hf. og Ó. Johnson og Kaaber – ÍSAM.

Einar er fæddur þann 23. ágúst árið 1977 í Reykjavík. Einar tók sæti í stjórn Ísfélagsins árið 2013. Einar hefur lokið BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Ísland og MBA námi. Einar starfar fyrir Kristinn ehf. og tengd félög. Einar er stjórnarformaður Korputorgs hf. og Myllunar hf.

Guðbjörg hefur setið í stjórnfélagsins frá árinu 2001. Guðbjörg er fædd þann 14. mars 1952 í Reykjavík. Hún lauk prófi frá Kennaraháskólanum árið 1976. Guðbjörg situr í stjórn Fastus ehf. og Kaaber-Ísam ehf.

Sigurbjörn er fæddur þann 31. júlí árið 1959 í Reykjavík. Sigurbjörn tók sæti í stjórn Ísfélagsins árið 2009. Hann starfar sem lögmaður og eigandi Juris lögmannsstofu og hefur lokið embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands. Sigurbjörn er stjórnformaður Árvaks hf. útgáfufélags Morgunblaðsins.

Framkvæmdarstjórn

Stefán er fæddur í Reykjavík 31. október 1963. Stefán hefur verið framkvæmdastjóri Ísfélagsins frá því í febrúar 2010 og er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Stefán situr í stjórnum eftirtalinna félaga: Iceland Pelagic, StorMar, Fiskmarkaðs Þórshafnar, Félags Uppsjávariðnaðarins og Útvegsbændafélags Vestmannaeyja.

Örvar fæddist í Vestmannaeyjum þann 2. desember 1976. Örvar er fjármálastjóri félagsins og tók við þeirri stöðu árið 2011. Áður hafði hann starfað hjá Íslandsbanka í fimm ár sem sérfræðingur á lánasviði stærri fyrirtækja og í fyrirtækjaráðgjöf bankans. Örvar útskrifaðist með BS gráðu í viðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík árið 2006. Örvar er varamaður í stjórn Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja.

Eyþór Harðarson er fæddur 11. júní 1963 í Vestmannaeyjum og starfar sem útgerðarstjóri  félagsins. Eyþór er menntaður rafvirki og rafmagnstæknifræðingur frá Fachhochschule Lübeck í Þýskalandi og lærði rafvirkjun hjá Hraðfrystistöð Vestmannaeyja. Hann hóf störf hjá Ísfélaginu árið 1995 eftir framhaldsnám sem tæknimaður sem breyttist í útgerðastjórastarfið árið 2003. Eyþór hefur sinnt stjórnarformensku hjá Fiskmarkaði Vestmannaeyja hf. síðan 2009.

Björn Brimar er fæddur þann 23. október árið 1970 í Ólafsfirði og starfar sem framleiðslustjóri í frystihúsi félagsins í Vestmannaeyjum. Björn starfaði áður sem vinnslustjóri á frystitogaranum Höfrungur III hjá HB Granda, nú Brim. Björn er menntaður sjávarútvegsfræðingur. Björn sinnir formennsku í stjórn Rannsóknarþjónustu Vestmannaeyja hf.

Siggeir Stefánsson er fæddur þann 21 desember, árið 1962 í Reykjavík og hefur starfað sem framleiðslustjóri í frystihúsi félagsins á Þórshöfn frá 2002, þar á undan í nokkur misseri í fiskimjölsverksmiðju félagsins á Þórshöfn. Siggeir er menntaður vélstjóri frá Vélskóla Íslands. Hefur einnig lokið námi á vegum útflutningsráð Íslands, um útflutning og hagvöxt og lokið VOGL námi og þar með Verkefnastjórnun á D stigi. Siggeir starfaði sem vélstjóri á sjó um 10 ár og útgerðarstjóri og framkvæmdarstjóri hjá útvegsfyrirtækjum í nokkur ár.

Rafn er fæddur þann 17. nóvember árið 1957 í Reykjavík. Rafn hefur verið verksmiðjustjóri mjölsverksmiðju félagsins á Þórshöfn síðan 2007. Rafn var vélstjóri á Stakfell ÞH frá 1982 – 1987 og vinnslu- og verksmiðjustjóri fyrir Hraðfrystistöð Þórshafnar frá 1987 til 2007. Rafn er menntaður vélfræðingur.

Stærstu hluthafar

Í árslok 2021 voru hluthafar félagsins 131. Að jafnaði er haldinn einn hluthafafundur á ári, nema upp komi atburðir eða breytingar sem kalla á fleiri. Tíu stærstu hluthafar félagsins eru tilgreindir í eftirfarandi töflu. Upplýsingar um raunverulega eigendur má finna á vefsíðu Fyrirtækjaskrár.

Aðild að samtökum

Ísfélag Vestmannaeyja hf. er aðili að eftirtöldum samtökum:

Félagslegir þættir

Mannauður

Starfsfólk félagsins er ein mikilvægasta auðlind þess og með markvissri mannauðsstjórnun náum við markmiðum okkar á sjó og í landi. Félagið vill bjóða starfsfólki upp á:

  • Skapandi vinnuumhverfi þar sem hvatt er til frumkvæðis og nýsköpunar.
  • Störf séu unnin þar sem fagmennska er í fyrirrúmi.
  • Vinnuumhverfi þar sem starfsmenn koma fram við hvern annan af vinsemd og virðingu.
  • Vinnuumhverfi með uppbyggilegri endurgjöf og upplýsingum sem deilt er með skilvirkum hætti.
  • Starfsstöðvar með góðum starfsanda og jafnrétti.
  • Starfsumhverfi sem er gott og samkeppnishæf kjör.
  • Störf þar sem starfsmenn fá þjálfun og fræðslu við hæfi.
  • Sveigjanleika og jafnvægi milli einkalífs og vinnu.

 

Hjá félaginu voru stöðugildin 233 talsins árið 2021. Ísfélag Vestmannaeyja hefur innleitt jafnlaunakerfi sem nær til allra starfsmanna félagsins og byggist jafnlaunastefna fyrirtækisins á henni. Tilgangur með jafnlaunakerfi er að tryggja launajafnrétti innan fyrirtækisins. Stefna félagsins er sú að gæta skuli fyllsta jafnréttis á milli karla og kvenna og að hver starfsmaður sé metinn á eigin forsendum samkvæmt lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði og öðrum lögum er snúa að jafnri stöðu karla og kvenna. Þannig er tryggt að mannauður fyrirtækisins nýtist sem best.

Félagið hefur skuldbundið sig til að koma upp, skjalfesta, innleiða og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur staðals IST 85:2012. Stjórnendur skuldbinda sig til að viðhalda stöðugum umbótum, eftirliti og bregðast við óútskýrðum launamun og þeim frávikum sem koma fram við rýni á jafnlaunakerfinu. Ísfélagið fór í sína fyrstu jafnlaunaúttekt árið 2020 og síðar viðhaldsúttekt 2021. Úttektirnar voru framkvæmdar af vottunarstofunni BSI á Íslandi. Í úttektunum fannst 0,6% útskýrður launamunur og því staðfest að hjá félaginu eru greidd sambærileg laun fyrir sambærilega vinnu.

Kynjahlutföll eftir störfum

Mannréttindi og kjarasamningar

Ísfélag Vestmannaeyja hf. virðir almenn mannréttindi starfsfólks. Félagið virðir einnig rétt allra starfsmanna til félagafrelsis og kjarasamninga. Allir starfsmenn hafa jafnan rétt til starfsþróunar og símenntunar óháð kyni, aldri og uppruna. Einelti, kynferðisleg eða kynbundin áreitni eða ofbeldi er undir engum kringumstæðum liðið eða umborið á vinnustöðum félagsins, hvorki í samskiptum starfsfólks né í samskiptum við starfsfólk verktaka, samstarfsaðila eða viðskiptavini. Ísfélagið hefur sett sér stefnu og reglur til að taka á einelti, áreitni og ofbeldi. Á árinu 2021 barst engin tilkynning um einelti hjá félaginu. Félagið hefur einnig sett sér mannréttindastefnu.

Stefnur

  • Ísfélag Vestmannaeyja hefur sett sér stefnur sem snerta á samfélagslegri ábyrgð og ábyrgri stjórnun. Meðal stefna sem félagið hefur sett sér eru:
  • Mannréttindastefna
  • Siðareglur
  • Stefna gegn mútum og spillingu
  • Stefna um samfélagslega ábyrgð
  • Starfsmannastefna
  • Jafnlaunastefna
  • Persónuverndarstefnu

 

Skoða má stefnur félagsins nánar hér

Fræðsla og uppbygging mannauðs

Þekking og hæfni starfsmanna skiptir miklu máli fyrir mannauð félagsins og starfsemi þess.  Ísfélag Vestmannaeyja hf. býður upp á símenntun sem eflir starfsfólk í starfi og eykur starfsánægju. Fræðslustarf er með ýmsum hætti hjá félaginu s.s. nýliðafræðsla, öryggisnámskeið, ásamt reglubundnum sí- og endumenntunarnámskeiðum á sviði öryggismála sjómanna. Fræðslu- og aðgerðaráætlun er gerð á hverju ári á öllum starfsstöðvum félagsins.

Slys

Á skipum félagsins urðu 9 fjarveruslys og 11 slys voru skráð í landvinnslu samtals á árunum 2018 – 2021. Flest slysin voru minniháttar en félagið mun áfram leggja mikla áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og markvissa vinnu í öryggismálum. Hjá félaginu starfa öryggisnefndir í hverri starfsstöð sem fylgjast með öryggismálum og gera úrbætur þegar þeirra er þörf. Enn fremur gera öryggisnefndir áhættumat á hverju ári og sinna eftirlitsskyldu.

Veiðar og vinnsla

Fiskveiðar og útgerð

Til að viðhalda góðu jafnvægi fiskistofna og sporna við ofveiði er mikilvægt að stunda eingöngu sjálfbærar veiðar. Ísfélagið leggur mikið upp úr gæðum hráefnis og til þess að tryggja þau er stöðugt gæðaeftirlit, bæði um borð í skipunum og í landi. Ábyrgar veiðar hafa hvatt til nýsköpunar þar sem áhersla er lögð á betri nýtingu á aflanum og aukna verðmætasköpun og minni kostnaðar, sem skilar sér til samfélagsins. Afli félagsins á árinu 2021 var um 95 þúsund tonn.

Ísfélag Vestmannaeyja hf. er aðili að Sjálfbærum fiskveiðum (Iceland Sustainable Fisheries) og er fyrirtækið með MSC vottun á afurðum sínum eftir því sem við á. 

Uppsjávarvinnsla

Í Vestmannaeyjum er rekið öflugt frystihús sem er sérhæft til vinnslu á uppsjávarafla s.s. loðnu, síld og makríl. Frystigetan er um 500 tonn á sólarhring. Á milli uppsjávarvertíða er unninn bolfiskur í húsinu í frystar og ferskar afurðir. Á Þórshöfn er rekið öflugt frystihús þar sem unninn er bolfiskur og uppsjávarfiskur. Á myndinni sést framleiðsla uppsjávarafurða eftir tegundum frá árinu 2016. 

Bolfiskvinnsla

Allar bolfiskafurðir félagsins eru framleiddar í frystihúsum félagsins á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum. Heildarmagn framleiðslu á árinu 2021 var rúm fjögur þúsund tonn.

Afurðir voru seldar til 7 landa en mest er selt til  Frakklands, Spánar og Englands.

Fiskimjölsverksmiðjur

Félagið rekur tvær fiskmjölsverksmiðjur, í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn. Framleiðslugeta verksmiðjunnar í Vestmannaeyjum er um 1.200 tonn af hráefni á sólarhring. Framleiðslugeta verksmiðjunnar á Þórshöfn er rúm 900 tonn af hráefni á sólarhring. Við framleiðslu á fiskimjöli þarf að framleiða heita gufu og keyra gríðarstóra þurrkara. Í báðum verksmiðjum er notuð endurunnin úrgangsolía sem er safnað um land allt, hreinsuð og svo blönduð. Ef ekki væri fyrir þessa ráðstöfun þyrfti að flytja úrgangsolíuna úr landi til brennslu.

Á myndinni hér að neðan má sjá framleiðslu á mjöli og lýsi hjá fyrirtækinu síðastliðin sex ár. Mjöl og lýsi sem félagið framleiðir fer að stærstum hluta til fóðurframleiðslu fyrir laxeldi í Noregi og á Skotlandi.

Gæðamál

Ísfélag Vestmannaeyja hf. hefur það að markmiði að vera fyrirmynd um ábyrga viðskiptahætti og starfa í sátt við umhverfið og samfélagið. Mikil áhersla er á að umgangast hafið og auðlindir þess af virðingu og nýta þær með sjálfbærum hætti og í samræmi við ráðgjöf vísindamanna hverju sinni. Í öllum rekstri félagsins er lögð áhersla á að starfa samkvæmt gildandi lögum og reglum. Félagið starfar á alþjóðlegum mörkuðum og selur afurðir sínar í gegnum sölufyrirtæki Stormar ehf. og Iceland Pelagic ehf. um allan heim. Vörur félagsins eru frosnar uppsjávarafurðir, bolfiskur, mjöl og lýsi. Allar afurðir félagins eru framleiddar eftir viðurkenndum stöðlum sem tryggja eiga rekjanleika og gæði afurðanna. Allar starfsstöðvar eru undir eftirliti Matvælastofnunar. Hér að neðan má sjá hvernig vottanir skiptast eftir starfsstöðvum:

Fjármál

Rekstur og efnahagur

Rekstur Ísfélagsins gekk vel á árinu 2021. Rekstrarumhverfi félagsins er síbreytilegt og ræðst ekki síst af sveiflum í stærð nytjastofna. 

Skattspor

Verðmætasköpun félagsins hefur víðtæk samfélags- og efnahagsleg áhrif líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Skattsporið gefur heildstæða mynda af öllum opinberum gjöldum og sköttum sem greiddir eru til hins opinbera vegna starfsemi félagsins. Ísfélagið greiddi 1.830 milljónir króna í skatta og gjöld á árinu 2021 og innheimti 1.037 milljónir króna á árinu 2021 af starfsmönnum fyrir ríkissjóð. Samtals var því skattspor starfseminnar 3.092 milljónir króna.

Umhverfi

Umhverfi

Ísfélagið hefur hafið vinnu við að greina umhverfisáhrif félagsins og meta hvar félagið getur orðið sjálfbærari í umhverfismálum. Ísfélagið fylgist með tækniframförum og nýsköpun í orkumálum og hefur fjárfest í tæknilausnum sem auka sjálfbærni starfseminnar og mun gera áfram.

Umhverfisáhrif Ísfélagsins liggja að langmestu leyti í eldsneytisnotkun fiskiskipa félagsins og olíunotkun í fiskmjölsverksmiðjunum. Óraunhæft er í dag að keyra verksmiðjur félagsins á rafmagni, þar sem ónæg orka er til staðar í þeim bæjarfélögum sem verksmiðjur félagsins eru staðsettar. Miklar fjárfestingar hafa þó verið gerðar til að takmarka áhrif fiskmjölsverksmiðja á umhverfið og keyra þær nú nær alfarið á endurunninni olíu.

Skip félagsins nota mikið eldsneyti og ekki er komin fram raunhæf lausn á orkuskiptum fiskiskipa. Við endurnýjum flotans er lögð áhersla á að kaupa sparneytnari skip og eins lögð áhersla á að skip félagsins séu keyrð á hagkvæman hátt og eftir fremsta megni reynt að lágmarka olíunotkun. Aðstæður við veiðar geta þó verið mjög breytilegar og oft þarf að sigla langt til og frá miðunum sem hefur mikil áhrif á notkun eldsneytis. Hér er áhrifaþátturinn helst breytilegt  göngumynstur stofnanna. Ísfélagið stefnir á að setja sér sérstaka umhverfisstefnu á árinu 2023.

Landvinnsla

Helsti umhverfisþáttur landvinnslunnar er eins og áður segir, fiskmjölsverksmiðjur félagins. Áhersla hefur verið lögð á að minnka hlutfall svartolíu við keyrslu verksmiðjanna og auka hlut endurunninnar olíu. Framleiðsla á endurunninni olíu felst í hreinsun á úrgangsolíu sem safnað er um land allt. Ef ekki væri fyrir þessa ráðstöfun þyrfti að flytja þessa olíu úr landi til brennslu. Slíkt myndi fela í sér töluvert meira kolefnisspor en brennsla með þessum hætti hér á landi.

Á árinu 2013 var tekin í notkun í fiskmjölverksmiðju félagsins í Vestmannaeyjum eitt öflugasta hreinsivirki á Íslandi. Þar er allt blóðvatn hreinsað og síðan unnið úr því lýsi og mjöl. Þetta á við um allt frárennsli sem kemur bæði frá fiskvinnslu félagsins í Vestmannaeyjum og mjölsverksmiðjunni. Með þessu eru umhverfisáhrif frárennslis félagsins í Vestmannaeyjum lítil, en frá félaginu rennur nú einungis blóðlitað vatn og takmarkað magn af lífrænum leifum.

Á grafinu hér að neðan má sjá samdrátt í notkun á olíu í verksmiðjum félagsins sem skýrist mest af loðnuleysi á árunum 2019 og 2020. Framleitt magn á hvert olíukíló sveiflast helst eftir tegundasamsetningu. Félagið framleiddi rúm sjö kíló af mjöli og lýsi á hvern olíulítra sem brenndur var á á árinu 2021.

Fiskveiðar

Mikilvægt er að tryggja sjálfbæra nýtingu fiskstofna umhverfis landið og umgangast auðlindina af ábyrgð og með virðingu. Upptaka núverandi fiskveiðistjórnunakerfis Íslendinga er í sjálfu sér stærsta umhverfisskref sjávarútvegsins. Kerfið tryggir hagkvæmni í greininni, kemur í veg fyrir ofveiði og ýtir undir hagkvæmni. Hagræðing í sjávarútveginum hefur skilað hagkvæmari veiðum, auknum gæðum afurða og lækkun kolefnisspors sjávarútvegsins. Skipum fækkað, þau eru stærri og hagkvæmari og áhersla lögð á að hámarka verðmæti afla, frekar en veitt magn. Ísfélagið gerði út sjö skip á árinu 2021. Fjögur uppsjávarskip, tvo togara og einn línubát.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum hefur eldsneytisnotkun uppsjávarskipa aukist  mikið frá árinu 2019 en lækkað á móti í bolfiskskipum félagsins. Aukningin í eyðslu uppsjávarskipa skýrist helst af því að töluvert lengra var á makríl og kolmunnamiðin árin 2020 og 2021 en áður. Afli á olíulítra hefur farið hækkandi á uppsjávarskipum, en helst stöðugri á bolfiskskipum félagsins. Hafa skal í huga að ýmsar breytur geta haft töluverð áhrif á olíunotkun skipa milli tímabila, s.s. samsetning afla, veiðimynstur, veður og ástand stofna.

 

Endurvinnsla og sorphirða

Skip félagsins koma með allan úrgang flokkaðan til hafnar og er hann meðhöndlaður samkvæmt Marpol reglugerð. Hvert skip heldur úti sorpdagbók. 

Árið 2021 var heildarmagn frá starfseminni í Vestmannaeyjum af úrgangi 104 tonn og var 43% flokkað. Af flokkuðu sorpi er lífrænn úrgangur 850 kg, óvirkur úrgangur 7,8 tonn, ólitað timbur 19,4 tonn, litað timbur 1,6 tonn og blandað endurvinnsluefni 15,5 tonn. 

Árið 2021 var heildarmagn úrgangs vegna starfseminnar á Þórshöfn 230 tonn og var um 50% flokkaður. Af flokkuðu sorpi var timbur 70,9 tonn, grænt endurvinnsluefni 6.6 tonn og bylgjupappi 37 tonn.

Öllum veiðafæraúrgangi félagsins er skilað til endurvinnslu eða endurnýtingar.

Umhverfisuppgjör

Ísfélagið birtir hér í fyrsta sinn umhverfisuppgjör félagsins. Tölurnar eru byggðar á bestu fáanlegu upplýsingum. Félagið áformar að birta ítarlegri uppgjör í næstu skýrslu.

Heildarolíunotkun skipa félagsins var rúmlega 8 milljónir lítra sem losaði um 22 þúsund tonn af CO2 ígildum. Heildarveiðar skipanna var rúmlega 85 þúsund tonn. 

Hlutur uppsjávarskipa af losun er um 17 þúsund tonn og þegar skoðuð er orkukræfni uppsjávarskipa má sjá að uppsjávarskip þarf 82 lítra af olíu til að veiða eitt tonn af fiski. Bolfiskskip nota á sama tíma 278 lítra af olíu til að veiða sama magn. 

Hafa skal í huga að ýmsar breytur geta haft töluverð áhrif á olíunotkun skipa milli tímabila, s.s. samsetning afla, veiðimynstur, veður og ástand stofna.

Umhverfisuppgjör

Tilvísunartafla

Tangagata 1 · 900 Vestmannaeyjar
Sími: +354 488 1100 · isfelag [hja] isfelag.is
Skrifstofan er opin kl. 10-12 og 13-15 virka daga

fylgdu okkur

© 2022 ÍSFÉLAG VESTMANNAEYJA HF. - All Right Reserved

is_ISIS